Hvernig á að skrifa persónulegan texta til viðskiptavinarins? Leiðbeiningar og ráð

dropshippingxl intro blog

Það er stundum sagt að til þess að ganga vel í viðskiptum þurfirðu að þekkja viðskiptavininn. Með góðri þekkingu og tilfinningu fyrir því hvernig viðskiptavinir þínir hugsa og bregðast við verður auðveldara að skrifa texta sem höfðar til þeirra. Hér kemur viðskiptapersónan til sögunnar. Viðskiptapersónan getur verið góð leið til þess að bæta samskiptin við viðskiptavini netverslunarinnar þinnar.

Hvað er viðskiptapersóna?

Viðskiptapersóna, eða kauppersóna, er prófíll sem er samsettur úr þeim þáttum sem þú telur skipta viðskiptavini þína máli. Persónan er byggð á upplýsingum sem þú safnar að þér með könnunum og frá raunverulegum hópi viðskiptavina. Smáatriðin í persónusköpuninni snúast ekki einungis um tölfræði heldur einnig um lífsstíl og það sem verður til þess að viðskiptavininn vantar vöruna þína.

Persónunni er ekki ætlað að endurskapa allan viðskiptavinahópinn heldur nýtist hún til þess að draga fram ákveðna lykilþætti í fari viðskiptavina. Þú getur búið til nokkrar persónur til að tákna mismunandi týpur í viðskiptavinahópnum.

Prófílar sem safnað er saman með þessum hætti koma sér vel þegar unnið er að markaðssetningu, vöruþróun og verðlagningu.

Kostir viðskiptapersóna

Viðskiptapersónurnar geta straumlínulagað markaðssetningu og sölutækni. Þær gera þér kleift að tala beint við ákveðna týpu og þú öðlast betri skilning á því hvernig er hægt að ná til þeirra sem samsama sig með þeirri persónu. Sá tími og fyrirhöfn sem fer í þennan hluta markaðssetningarinnar skilar sér í betri samskiptum við viðskiptavini og, ef allt gengur upp, aukinni sölu.

Gagn af viðskiptapersónum

  • Með viðskiptapersónunni tengir þú ákveðna ímynd við viðskiptavininn þinn
  • Þar með getur þú einbeitt þér betur að viðskiptavinum sem eru reiðubúnir að kaupa vöruna hjá þér.
  • Gefur hugmynd um hvernig vörur viðskiptavini þínir gætu viljað kaupa í versluninni
  • Gerir þér kleift að sérsníða markaðsefni, orðsendingar og auglýsingaherferðir að raunverulegum þörfum viðskiptavina
  • Geta vakið athygli réttra viðskiptavina á versluninni og fengið endurtekin viðskipti
  • Það besta er að það er auðvelt og ódýrt að skapa viðskiptapersónur
  • Hvernig á að byggja upp viðskiptapersónu?

    1. Rannsóknir

    Ef þú hefur ekki þinn eigin viðskiptavinahóp að leita til, safnaðu þá upplýsingum á netinu. Skoðaðu vefsíður samkeppnisaðila þinna og lestu umsagnir um vöruna. Hvaða áskorunum mæta þessir viðskiptavinir sem leiða til þess að þeir kaupa þessar vörur og hvernig getur þú hjálpað þeim betur en samkeppnisaðilarnir?

    Að lesa vöruumsagnir og dóma gefur vísbendingar um það hvernig markhópurinn þinn hugsar og hegðar sér. Með því að gaumgæfa textann er hægt að gera sér hugmyndir um t.d. menntunarstig og lífsstíl.

    Önnur frábær rannsóknaraðferð er að senda út kannanir á raunverulega viðskiptavini. Þessi aðferð virkar þó einungis ef hópur viðskiptavina er nú þegar til staðar. Viðskiptavinakannanir er hægt að senda reglulega út yfir árið og eftir að viðskiptavinur hefur gengið frá pöntun. Spurðu viðskiptavini spurninga sem hjálpa til við að skapa persónuna, eins og aldur, staðsetningu og hvað þeim líkar best við verslunina.

    Gögn frá samfélagsmiðlum um fylgjendahópinn geta einnig komið að gagni. Facebook Insights gefur til dæmis lýðfræðilega tölfræði um þá sem bregðast við færslunum þínum.

    2. Óskir og áskoranir viðskiptavina

    Til að fá yfirsýn yfir þær ástæður sem viðskiptavinirnir hafa fyrir því að kaupa vöruna þína, reyndu að komast að því hvað varð til þess að þeir leituðu til þín. Eru verið að endurnýja heimilið með litlum tilkostnaði? Er von á barni og því þægilegra að versla á netinu?

    Gangtu lengra og athugaðu hvernig keppinautarnir fara að. Íhugaðu hvað gerir fyrirtækið þitt öðruvísi en önnur; hvaða týpa velur þig fram yfir verslun keppinautarins og hvernig getur þú skarað fram úr?

    Þessar upplýsingar ættu að koma fram í öllum viðskiptapersónunum sem þú setur saman.

    3. Búðu til viðskiptaprófílinn

    Þegar gögnunum hefur verið safnað saman er hægt að strengja upplýsingarnar saman í viðskiptapersónu. Skoðaðu upplýsingarnar og leitaðu að mynstri og trendum. Þú ættir að geta sett saman 2-3 persónur sem tákna kjarnann í viðskiptavinahópi þínum. Skipuleggðu gögnin þín fyrir hverja persónu í eftirfarandi flokka:

  • Aldur
  • Kyn
  • Staðsetning
  • Starfssvið
  • Hæsta menntunarstig
  • Tekjur
  • Hjúskaparstaða
  • Fjöldi barna
  • Eyðsluvenjur
  • Mest notaði samfélagsmiðill
  • Áhugamál og tómstundir
  • Áskoranir og þarfir í tengslum við kauphegðun
  • Svona lífsstílssnið hjálpar þér að hugsa um viðskiptavinina og ávarpa þá sem raunverulegar manneskjur.

    Svo er hægt að bæta við smáatriðum á borð við:

  • Heppilegasta verðbil
  • Áhugi á nýjum vörum
  • Vörumerkishollusta
  • Heilsuáhugi
  • Áhugi á umhverfisvænum vörumerkjum
  • Vörumerki sem þeir leggja í vana sinn að kaupa (og treysta)
  • Dæmi

    Hér eru nokkur dæmi sem gefa hugmynd um hvernig er hægt að vinna úr upplýsingum.

    Ungur fjölskyldufaðir með áhuga á útivist, Jakob

  • 37 ára gamall
  • Giftur og á ung börn
  • Vinnur í stjórnunarhlutverki í tölvubransanum
  • Keyrir Volvo jeppling
  • Tók nýverið húsnæðislán fyrir litlu raðhúsi
  • Hefur áhuga á útivist, útilegum og hjólreiðum
  • Vill fara í lengri og styttri hjólreiðatúra með börnunum til að skoða umhverfið
  • Vill að vörur séu peninganna virði en er til í að borga meira fyrir traust vörumerki
  • Kaupir vörur frá Levis, Calvin Klein og Tommy Hilfiger fyrir sjálfan sig.
  • Hann og eiginkonan kaupa fatnað á börnin í Zöru og H&M.
  • Ekki til í að eyða miklu í reiðhjól fyrir börnin þar sem þau eru að stækka.
  • Notar Instagram og YouTube
  • Tilvonandi amma, Viktoría

  • 58 ára gömul
  • Gift í 30 ár
  • Starfar í stjórnunarstöðu á sjúkrahúsi
  • Á eigið heimili, skuldar ekki húsnæðislán
  • Býr í útjaðri borgar
  • Keyrir Toyota hybrid bíl.
  • Ferðast með eiginmanni sínum þrisvar á ári erlendis.
  • Er að leita að vörum fyrir fyrsta barnabarnið sem er væntanlegt
  • Hefur áhuga á garðyrkju og hestamennsku
  • Finnst ekki gaman að keyra inn í borgina til að versla og finnst þægilegt að kaupa á netinu.
  • Verslar yfirleitt í úrvalsmatvöruverslun einu sinni í viku.
  • Notar Facebook til að halda sambandi við fjölskylduna
  • Að endingu

    Viðskiptapersónur koma sér vel við uppsetningu markaðsefnis og herferða, kynningu á nýjum vörum eða við hvers konar umbætur á dropship versluninni. Viðskipta- og markaðsákvarðanir þínar öðlast nýja dýpt með þeim upplýsingum sem þú safnar um viðskiptavinina. Mundu að uppfæra persónurnar eftir því sem þú safnar frekari upplýsingum og nýir þættir koma í ljós í tengslum við reksturinn.

    Tengdar greinar:

  • Góð ráð við ímyndaruppbyggingu vörumerkis
  • Að gera viðskiptaáætlun fyrir dropship rekstur
  • Textaskrif fyrir dropship seljendur
  • dropshippingxl intro blog