Góð ráð við ímyndaruppbyggingu vörumerkis

dropshippingxl intro blog

Fólk kaupir af fyrirtækjum sem það treystir og þess vegna er mikilvægt að skapa rétta ímynd og standa undir henni. Ef þú getur aukið það traust sem viðskiptavinir þínir sýna þér, þeim mun meira aukast viðskiptin og ágóðinn verður meiri. Það er mikilvægur hluti af þróun rekstursins. Vertu viss um að fyrirtækið þitt gefi góða mynd af starfseminni, svo að viðskiptavinir velji þig fram yfir samkeppnisaðilann.

Hvað er ímynd?

Samkvæmt Cambridge Dictionary er ímyndarvirði skilgreint sem „fjárhagslegt virði þess að hafa viðskiptavini sem eru reiðubúnir að greiða fyrir tiltekið vörumerki.“ Önnur merking er "góðir kostir sem fyrirtæki vill að neytendur tengi við vörumerki." Í hnotskurn veltur ímyndarvirði fyrirtækis á orðspori þess.

5 skref til að bæta ímyndarvirði

Bættu upplifun viðskiptavina með öllum ráðum

Í 26. útgáfu The CMO Survey kom fram að „sterk upplifun viðskiptavina“ væri mikilvægust fyrir viðskiptavini, sérstaklega þegar kemur að netfyrirtækjum. Þriðjungur af 356 bestu markaðsstarfsmönnum í Bandaríkjunum mátu jákvæða tilfinningu fyrir fyrirtæki sem það mikilvægasta sem viðskiptavinir fara eftir, samanborið við betri gæði vöru (30,2%), framúrskarandi þjónustu (20,6%), traust samband (23,3%), betri nýsköpun (9,0%) og lágt verð (16,9%).

Upplifun viðskiptavinarins tekur til allra þátta sem viðskiptavinur hefur til þess að skoða vörumerkið þitt og starfsemi. Þetta á t.d. við vefsíðu fyrirtækisins, smáforrit í farsíma, spjallmenni og samfélagsmiðla.

Þetta endurspeglast einnig í fjölda fyrirtækja sem verja tíma og fé í að bæta upplifun viðskiptavinarins. Mikill meirihluti markaðsfólks sem svaraði í CMO könnuninni (73,6%) greindi frá því að það reiknaði með að fjárfesta í uppbyggingu stafræns viðmóts á árinu 2021. Að meðaltali var nærri 15% af fjárhagsáætlun markaðssetningar varið í upplifun viðskiptavina á þessu sama ári.

Hvernig dropship seljendur geta bætt upplifun viðskiptavina

  • Vertu viss um að heimasíðan sé faglega unnin með þarfir viðskiptavinar í huga. Er auðvelt að rata um síðuna og finna það sem leitað er að?
  • Er kaupferlið einfalt og er hægt að nota alla helstu greiðslumáta? Geta þeir haft samband við þjónustuver?
  • Eru upplýsingar á heimasíðunni gagnlegar fyrir viðskiptavininn og ekki of tyrfnar?
  • Gættu þess alltaf að hafa samskipti við viðskiptavini á vinsamlegum nótum
  • Skilar markaðssetning í tölvupósti tilætluðum árangri?
  • Fyrstu viðskiptavinir þínir eru VIP

    Þegar fyrirtækið kemur ferskt inn á þann vettvang sem netsmásala er, ættu fyrstu viðskiptavinirnir að fá konunglega meðferð! Án fjárþungra markaðs- og auglýsingaherferða, byggist árangurinn í upphafi á því hvernig fyrstu viðskiptavinirnir upplifa verslunina, vörur hennar og þjónustu. Á þessu stigi er mikilvægt að skapa jákvætt umtal; að viðskiptavinir vísi öðrum til þín og endurtaki viðskipti við fyrirtækið.

    Framkoma við fyrstu viðskiptavini

  • Gættu þess sérstaklega að pantanir þeirra séu afgreiddar tímanlega.
  • Svaraðu tafarlaust öllum fyrirspurnum sem þeir kunna að hafa
  • Fylgdu sölunni eftir til að fá athugasemdir, jákvæðar og neikvæðar
  • Þú gætir t.d. boðið þeim afslátt af næstu kaupum fyrir að vera meðal fyrstu viðskiptavina og hvatt þá til þess að greina frá reynslu sinni af fyrirtækinu
  • Íhugaðu hvað gerir fyrirtækið þitt einstakt í sinni röð

    Eitthvað aðeins öðruvísi getur skapað allt aðra upplifun en keppinautarnir bjóða. Það gerir fyrirtækið þitt auðþekkjanlegt og gefur viðskiptavinum ástæðu til að snúa aftur. Þetta hjálpar einnig við að byggja upp traust á fjölmennu markaðssvæði.

    Við getum prófað þessa hugmynd með því að skoða matvæla- og drykkjarvöruframleiðendur. Hefurðu leitt hugann að lögun og útliti gosflaskna? Best þekktu vörumerkin nota flöskur með einstakri lögun. Coca-Cola notar t.d. flösku sem er örlítið hornrétt á efri helmingi og með sveigðar línur að neðanverðu. Þetta form er gegnumgangandi í framleiðslunni, bæði í gler- og plastflöskum.

    Coca-Cola fyrirtækið hannaði einnig sérstaka flösku fyrir Fanta-drykkinn. Árið 2012 fengu Fanta flöskurnar nýtt útlit með snúningi, í samræmi við slagorð og létta og skemmtilega markaðssetningu. Þetta er einföld en snjöll leið til þess að viðskiptavinurinn viti að varan er ósvikin.

    Góðgerðarstarfsemi skilar góðu umtali

    Með vísan í áðurnefnda CMO Survey, sýndu niðurstöðurnar að næstum 80% markaðsfólks töldu viðskiptavini sína fylgjast með því hvernig fyrirtækin létu gott af sér leiða á meðan covid-faraldurinn geysaði. 48% töldu að samfélagsleg tengsl og umhverfisvæn stefna skiptu viðskiptavini sína máli.

    Semicolon Bookstore and Gallery í Chicago er dæmi um fyrirtæki sem tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega. Markmið fyrirtækisins er "að efla tengsl milli bókmennta, lista og þekkingarleitar; og einnig að nota mátt orða til að bæta samfélagið."

    Þetta er engin venjuleg bókabúð. Eigandinn vildi skapa sérstöðu með því að hvetja fólk til að lesa meira og auka lestrarkunnáttu í nærsamfélaginu. Til þess að gera það, bauð hann nemendum hverfisins að fá bækur með sér heim, endurgjaldslaust.

    Hugmyndir fyrir samfélagsþátttöku

  • Gefðu hluta af hagnaði til góðgerðarsamtaka á svæðinu
  • Gefðu vörur úr versluninni þinni þangað sem þær nýtast vel, t.d. garðverkfæri til hjúkrunarheimila, sem geta gefið öldruðum tækifæri sem þau annars ættu erfitt með að fá.
  • Styrktu fjáröflunarviðburði í nærsamfélaginu
  • Gefðu matargjafir til hjálparsamtaka
  • Endurgjöf frá viðskiptavinum

    Spurningalistar, athugasemdir og umsagnir hjálpa þér að hafa yfirlit yfir óskir og upplifun viðskiptavina. Það eru jú þeir sem skapa tekjur fyrir fyrirtækið þitt og því skipta skoðanir þeirra miklu máli hvað varðar vöruframboð, upplifun af netverslun eða þjónustuveri, og munu á endanum bæta þjónustuna sem þú býður. Umsagnir á netinu gegna sérstaklega mikilvægu hlutverki í kaupákvörðun viðskiptavina, svo taktu þær alvarlega og finndu lausnir á vandamálum sem kunna að koma upp.

    Með því að senda stutta könnun til viðskiptavina á 6-12 mánaða fresti færðu frábærar upplýsingar um það hvernig þú getur bætt starfsemina. Hafðu könnunina stutta, eða að hámarki 5 mínútur. Fyrir lengri kannanir og markaðsrannsóknir getur það haft góð áhrif á svörun að bjóða einhvers konar verðlaun eða afsláttarkóða til þeirra sem ljúka könnuninni.

    Athugaðu einnig að sterk fylgni er á milli þess hvenær viðskiptavinir fá tölvupóst með boði um þátttöku í skoðanakönnun og svarhlutfalls þeirra.

    Samantekt

    Með því að fylgja þessum ráðum byggirðu upp traust meðal viðskiptavina þinna og tryggir endurtekin viðskipti. Íhugaðu að skrifa fyrst niður markmið og framtíðarsýn fyrirtækisins sem hluta af viðskiptaáætlun til að auðvelda þér að gera áætlun fyrir ímyndarvirði þess.

    Tengdar greinar:

  • 7 góð ráð fyrir vörumerkið þitt í dropshipping rekstri
  • Hvernig er hægt að hefja dropship rekstur án heimasíðu?
  • 5 áhrifaríkar auglýsingaleiðir fyrir dropship verslunina þína
  • dropshippingxl intro blog